Kerecis hefur sett á markað nef- og munnúða sem drepur veirur, þar á meðal þá sem veldur COVID-19. Landspítalinn rannsakar efnið. Niðurstöður Kerecis sýndu 99 prósenta virkni. Forstjórinn segir varla hægt að bíða mikið lengur.

Handsápa er sambland af alls konar fitusýrum og öðrum efnum sem eins og kunnugt eyða kórónavírusum, nýja varan okkar er í grundvallaratriðum sérstök sápa fyrir nef- og munnhol,“ segir Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis. Viruxal, dótturfyrirtæki Kerecis, hefur sett á markað nef- og munnúða sem drepur veirur, þar á meðal veiruna sem veldur COVID-19. Tilgangurinn er að úðinn geti fyrirbyggt smit, en flest smit verða í gegnum nefholið. Er úðanum ekki ætlað að koma í stað annarra sóttvarna á borð við fjarlægðartakmarkanir, handþvott og grímu­notkun.

Rannsóknir eru enn í gangi, þar á meðal á Landspítalanum. Rannsókn Utah-háskóla leiddi í ljós að úðinn drepur 99,97 prósent veirunnar.

„Vísindagreinar hafa sýnt að COVID-vírusinn tekur sér bólfestu í nefholinu. Hann kemur í loftdropum og sest í slímhúðina í nefholinu. Ræðst á frumurnar þar og fjölgar sér. Síðan færir sjúkdómurinn sig niður eftir slímhúðinni og ofan í lungu,“ segir Guðmundur. „Viruxal-­fitusýrunum er úðað í nef- og munnhol og mynda þar varnarlag, loftdroparnir lenda í varnarlaginu og eins og sápa þá leysir Viruxal upp vírusinn því hann er með fituhjúp. Ef það kemur lítill loftdropi með vírus í nef þá lendir hann í þessu sem leysir hann upp.“

Nefúðinn er hugsaður sem vörn í þeim tilfellum sem ekki er hægt að nota grímu. Munnúðinn er hugsaður fyrir þá sem vilja einnig minnka magn veirunnar í kokinu. Snúa rannsóknir nú að því að komast að því hvort úðinn virki til að hjálpa þeim sem eru þegar veikir.

Virkni úðans í nefi og koki

Úðinn er þróaður út frá sáraúða Kerecis sem læknar á Ítalíu prófuðu á sjúklingum með byrjunareinkenni COVID-19, vandinn við þann úða er að hann bragðast verulega illa. „Þeir hafa notað sáraúðann í mörg ár og vita að hann drepur vírusa, þeir fóru að úða honum upp í nefið á sjúklingum. Í kjölfarið leituðum við til háskólans í Utah til að sannreyna hvernig hann virkar, ásamt því að þróa vöruna til þess að hún henti betur sem úði í munn og kok,“ segir Guðmundur. Er hugmyndin einnig að úðinn geti minnkað veirumagnið eftir smit. „Þetta snýst ekki bara um smit, það skiptir máli hversu mikið af veirunni er til staðar.“

Til að tryggja sem besta virkni þarf að nota nefúðann sex sinnum á dag. „Þetta er hugsað sem fyrirbyggjandi aðferð. Þegar þú ferð út að borða til dæmis og getur ekki verið með grímu, þá getur þú sprautað úðanum í nefið og vitað að allir dropar lenda í fitulaginu sem drepur vírusinn.“ Úðinn er ekki sá fyrsti sinnar tegundar, en mörg fyrirtæki í heiminum hafa verið að skoða sambærilegar lausnir.

COVID-göngudeild Landspítalans hefur umsjón með rannsókninni hér á landi og 128 smituðum einstaklingum var boðin þátttaka í samanburðarrannsókn, þar sem helmingur fékk úða og hinir óvirkan samanburðarúða.

Rannsóknum er ekki lokið, Guðmundur segir að það hafi verið hugsað lengi hvort bíða ætti eftir öllum niðurstöðum áður en varan væri sett á markað. „Siðferðislega séð þá finnst okkur við ekki geta beðið. Klínískar rannsóknir taka langan tíma. Við vitum frá rannsókninni í Utah að þetta drepur vírusinn á skilvirkan hátt á rannsóknarstofu. Hvað getum við annað en að setja þetta á markaðinn? Á næstu mánuðum koma niðurstöður úr fleiri rannsóknum, meðal annars frá Landspítalanum, og þar með munu gögn um virkni vörunnar styrkjast enn frekar.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *